Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Mamma hefur kvatt
29.1.2008 | 22:10
Fyrir næstum tveimur árum síðan greindist mamma með krabbamein, í annað sinn. Í þetta sinn var greiningin ólæknandi mergæxli. Þetta er krabbamein sem ræðst á beinmerginn. Meðferð hófst strax og gekk hún mjög vel. Próteinið sem krabbameinsfrumurnar framleiddu var mælt reglulega og lækkaði verulega. En rétt fyrir jólin 2007 fór mamma að vera slöpp og krabbameinslyfin ekki að gera gagn. Eftir áramótin, þann 4.janúar var hún lögð inn á Landsspítalann og dó þar þann 10.janúar s.l.
Mamma tók öllum þeim hremmingum og þrengingum sem fyrir hana komu með sínu magnaða jafnaðargeði. Árið 2006 hafði fundist ber í brjóstinu á henni og var tekinn fleygur úr því til að komast fyrir meinið. Síðan tók við geislameðferð og allt gekk þetta mjög vel og var hún í eðli sínu sterk og hraust kona. Hún var einstakur karakter sem öllum lynti við. Vinir, fjölskylda, kunningjar og þeir sem unni hjá henni við útgerðina og beitninguna voru sammála um það.
Augljóslega hafði hún mikið umburðarlyndi, hvernig var annað hægt, eigandi tíu börn og átta sem komust á legg! Þar sem pabbi var mikið í burtu við sjósókn á fyrri árum þeirra búskapar, kom það mikið til í mömmu hlut að sjá um uppeldi gríslinganna. Oft var nú "hamagangur á Hóli" á Selnesinu, þegar strákpjakkarnir fimm auk vinanna voru í fótbolta á ganginum og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar var skotið niður ljós, mynd eða jafnvel kaffibolli úr hendi ömmu gömlu á loftinu! Það komu nú stundum skammir frá Mæsu en stundum var líka bara glott út í annað, ekkert annað hægt!
Hún var afkastamikil húsmóðir, bakaði allt brauð og kökur, saumaði og prjónaði föt á pottormana sína, þreif allt hátt og lágt og þar fram eftir götunum. Hún vann líka úti þegar elstu börnin voru orðin stálpuð og síðan var það árið 1982 að þau pabbi stofnuðu eigin útgerð með kaupum á Fiskinesi SU 65. Sá bátur var keyptur frá Dalvík og fór ég, litla örverpið eins og systkini mín myndu segja, með mömmu og pabba norður að sækja happafleyið. Ég var aðeins sex ára og man þetta vel enn þann dag í dag. Við gistum eina nótt við bryggjuna áður en við lögðum af stað austur. Við fengum brælu á hluta leiðarinnar og er ég var sofandi niðri í koju, hoppaði ég ansi mikið upp og rak hausinn í loftið! Þetta er minnisstætt og pabbi segir oft frá því þegar ég koma á fartinni upp til þeirra mömmu og pabba og var mikið niðri fyrir og sagði að ég hefði sko "hoppað alllllveg uppí loft" í veltingnum! Minningarnar eru ótal margar og ég er heppin að eiga þær allar. Mamma og pabbi studdu mig mikið í mínu aðaláhugamáli, hestunum. Þau gáfu mér minn fyrsta hest þegar ég var tíu ára og hjálpuðu mér endalaust mikið við hirðinu og umönnun hestanna. Þau þvældust með mér á mót um allt austurland og jafnvel suður og norður í land. Þau höfðu gaman af öllu í kringum hestana og pabbi er ennþá að stússast í þessu með mér.
Eftir að mamma og pabbi fóru að hafa vetursetu hér í Reykjavík, hafa þau verið mér mikið innan handar. Við Maríanna Sól bjuggum hjá þeim Jöklaselinu, síðan keyptum við sitthvora íbúðina hérna í Selásnum og það hefur verið ómetanlegt að hafa þau í næstu götu. Þau hafa verið boðin og búin til að passa fyrir mig hvenær sem er og Maríanna Sól er mikil ömmu og afastelpa. Síðan hún byrjaði í skólanum s.l haust, hefur hún haft fyrir vana að fara til þeirra að skóla loknum á daginn. Þetta gerir hún enn, labbar til afa.
Það er mikið skarð skilið eftir í okkar daglega lífi, pabba og okkar Maríönnu Sólar. Það sem við getum gert er að minnast góðu stundanna og allra minninganna sem við eigum og bíða þess að tíminn lækni sárin.
Við kveðjum þig elsku eiginkona, mamma og amma.
Bloggar | Breytt 4.8.2008 kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Margt gerist á mörgum mánuðum...
1.1.2008 | 15:38
Augljóslega er það ekki oft sem ég finn hjá mér þörf fyrir að blogga. En þegar það gerist, þá hripa ég hér einhverjar staðreyndir (stundum hreinasta bull) á þessa síðu mína. Nú síðan síðasta færsla var skrifuð, hefur nú ýmislegt gerst, hlýtur það ekki að vera?
Á vordögum 2007 fór Maríanna Sól mikið að spá í skólann og hvort hún færi nú ekki að byrja í honum. Krakkarnir af leikskólanum fóru í heimsókn til kunningja sinna í 1.bekkjum Selásskóla svona til þess að fá smá tilfinningu fyrir skólastarfinu. Þetta lagðist heldur betur vel í verðandi skólastelpuna mína, því nú var óþreyjan enn meiri að fara að hætta í leikskólanum og takast á við alvöru lífsins í grunnskólanum. Svo kom að því að daman kvaddi leikskólann í lok júní og var í fríi það sem eftir lifði sumars. Ég var því miður ekki alveg með sömu stundaskrá, þar sem að vegna anna í Nálinni og í vinunni minni í Egilsson, hafði ég mjög lítið sumarfrí þetta sumar, sem gerði hina árlegu utanlandsferð okkar að engu þetta árið, þó svo að ég ein, hafi farið 3 x erlendis, þá fór Maríanna Sól ekkert út fyrir landssteinana á árinu sem var að líða. Allt í lagi með það, það verður bætt úr því nú á nýja árinu.
Einhvern veginn leið sumarið 2007 gasalega hratt. Brjálað að gera í vinnu og lítið um lengri og styttri ferðalög. Reyndar náði ég að fara í helgarferð með nokkrum vinum á Löngufjörur. Við vorum þrjár vígalega stelpur sem lögðum af stað úr Reykjavík á föstudegi einum í júli. Þetta voru Steffi og Anna Birna auk mín. Við fórum á tveimur bílum með tvær hestakerrur í eftirdragi. Anna Birna var á sínum risabíl með 4ra hesta kerru og við Steffi vorum á mínum bíl með hennar hestakerru með 2 hestum í. Ferðalagið gekk stórvel, þó að Anna Birna hefði nú pínu áhyggjur til að byrja með þá stóð hún sig eins og hetja, eins og hún væri hreinlega alltaf að þeysast með risastórar hestakerrur út um allt! Nú, ástæðan fyrir því að við vorum með 6 hesta var sú, að vinafólk mitt frá Vopnafirði ætlaði að slást í för með okkur á fjörunum. Við hittum þau fyrst í Borgarnesi, þar sem við versluðum eitt og annað sem okkur fannst okkur vanta og héldum síðan sem leið lá upp á Snæfellsnes, nánar tiltekið að Hótel Eldborg þar sem hópurinn átti pantaða gistingu. Allt gekk vel á leiðinni og þeir sem ekki voru að keyra, byrjuðu á að smakka bjórinn! Þessi helgi var hreint frábær, það er ólýsanlegt að ríða þarna um hvíta sandana, út í eyjar, yfir ála, útí sjó, fyrir klettabelti og ríða svo fram á forvitinn selahóp sem hafðist við í ál einum lengst uppi á sandi. Það sem toppaði svo helgina var þegar við fórum einn túr með honum Trausta í Skógarnesi um hans landareign þarna á fjörunum. Þar vorum við með fleira fólki, Óla Flosa og hópi á hans vegum. Þetta var frábær túr með frábæru fólki. Fjörurnar kalla svo væntanlega á mann aftur í júlí á þessu ári....ekki spurning
Það var síðan 22.ágúst s.l sem Maríanna Sól skólastelpa fékk að fara í skólann sinn í fyrsta skipti. Við mæðgur mættum spenntar (mamman ekki síður) til að hitta hana Valgerði sem er kennarinn hennar Mariönnu Sólar. Okkur leist strax vel á hana. Hún spjallaði fyrst við okkur saman, svo bað hún Maríönnu að fara að lita mynd á öðru borði í stofunni og spjallaði við mig á meðan. Svo fór hún til hennar og gerði nokkur lítil próf á henni til að kanna hvar hún væri stödd með ýmis mál, eins og lestur, form, leggja saman litlar tölur og draga frá og ýmislegt fleira. Þetta stóðst mín glæsilega og Völu leist stórvel á þessa stelpu sem hún kallaði "snilling" og ég veit ekki hvað og hvað. Lofsöngurinn hélt svo áfram í byrjun nóvember. Þá var foreldraviðtal án barns og verið að tala um stöðu barnsins. Þetta var allt í svo ljómandi standi, að mamman bara táraðist! Stelpan svo dugleg að lesa, skrifa, tala, leika sér og góð við bekkjarfélagana og varð svo efst á prófinu (man ekki hvað það heitir, svipað og í leikskólanum) sem lagt var fyrir þau. Þannig að ég fór út úr viðtalinu, með stolt í hjarta og bros á vör. Góð stelpa sem ég á!
Á haustdögum seldi ég minn hlut í Nálinni og tók að mér starf vörustjóra hjá Egilsson hf, þar sem vinur minn hann Eggert var að hætta og ganga til liðs við Lífland og stjórna þar innkaupum á hráefni til dýrafóðursgerðar. Það tók mig þó nokkurn tíma að koma mér inní allt í þessu nýja starfi og sérstaklega þar sem ég þurfti að undirbúa mig vel fyrir bókasýninguna í Frankfurt sem ég fór á vegna þessa nýja starfs. Eggert var reyndar svo indæll að koma með mér þangað og kynna mig fyrir öllum sem ég þurfti að þekkja og svo skoðaði ég auðvitað nýja hluti og seljendur líka. Þetta var mjög skemmtileg ferð og lærdómsrík fyrir græningjann mig. EN eftir að heim var komið tók við hræðilegur tími hjá mér. Ég hafði einhvern veginn náð mér í Salmonella-sýkingu þarna úti og steinlá fárveik af henni í tvær vikur. Þetta er það versta sem ég hef lent í og ég hélt á tímabili að mér myndi bara ekkert batna, þetta yrði minn bani! Sem auðvitað varð ekki raunin og í dag er ég mjög spræk. Samt tók það mig 4 vikur að ná mér að fullu og ég get sannarlega ekki mælt með þessari veiki! Þegar ég var hvað verst, flutti ég til mömmu og pabba, því ég gat bara engan veginn hugsað um Maríönnu Sól, sem auðvitað fór í skólann á hverjum morgni og átti sitt venjulega líf þó mamman væri gjörsamlega út úr heiminum!
Í nýja starfinu er ég vörustjóri bóka, tímarita, DVD og tónlistardiska, tungumálakennsludiska og frímerkja (!) svo eitthvað sé nefnt. Síðast liðnar vikur hafa verið mjög strembnar og ég unnið alveg myrkranna á milli við að koma jólabókavertíðinni í gott horf. Það tókst bara vel og er ég nokkuð sátt bara. Nú tekur við önnur vertíð, sem er upphaf annar í framhaldsskólum landsins.
Jólin já, þau voru bara týpístk, voða fín og róleg. Reyndar náði ég ekki að taka hestana á hús fyrir jól, sökum anna. Þannig að það var eiginlega enn meiri leti í gangi en venjulega yfir þessa hátíðardaga.
Að lokum langar mig að óska öllum gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir góðar stundir á árinu sem kvaddi í nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)