Mamma hefur kvatt

KrossFyrir næstum tveimur árum síðan greindist mamma með krabbamein, í annað sinn.  Í þetta sinn var greiningin ólæknandi mergæxli.  Þetta er krabbamein sem ræðst á beinmerginn.  Meðferð hófst strax og gekk hún mjög vel.  Próteinið sem krabbameinsfrumurnar framleiddu var mælt reglulega og lækkaði verulega.  En rétt fyrir jólin 2007 fór mamma að vera slöpp og krabbameinslyfin ekki að gera gagn.  Eftir áramótin, þann 4.janúar var hún lögð inn á Landsspítalann og dó þar þann 10.janúar s.l.

Mamma tók öllum þeim hremmingum og þrengingum sem fyrir hana komu með sínu magnaða jafnaðargeði.  Árið 2006 hafði fundist ber í brjóstinu á henni og var tekinn fleygur úr því til að komast fyrir meinið.  Síðan tók við geislameðferð og allt gekk þetta mjög vel og var hún í eðli sínu sterk og hraust kona.  Hún var einstakur karakter sem öllum lynti við.  Vinir, fjölskylda, kunningjar og þeir sem unni hjá henni við útgerðina og beitninguna voru sammála um það. 

Augljóslega hafði hún mikið umburðarlyndi, hvernig var annað hægt, eigandi tíu börn og átta sem komust á legg!  Þar sem pabbi var mikið í burtu við sjósókn á fyrri árum þeirra búskapar, kom það mikið til í mömmu hlut að sjá um uppeldi gríslinganna.  Oft var nú "hamagangur á Hóli" á Selnesinu, þegar strákpjakkarnir fimm auk vinanna voru í fótbolta á ganginum og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar var skotið niður ljós, mynd eða jafnvel kaffibolli úr hendi ömmu gömlu á loftinu!  Það komu nú stundum skammir frá Mæsu en stundum var líka bara glott út í annað, ekkert annað hægt!  InLove

Hún var afkastamikil húsmóðir, bakaði allt brauð og kökur, saumaði og prjónaði föt á pottormana sína, þreif allt hátt og lágt og þar fram eftir götunum.  Hún vann líka úti þegar elstu börnin voru orðin stálpuð og síðan var það árið 1982 að þau pabbi stofnuðu eigin útgerð með kaupum á Fiskinesi SU 65.  Sá bátur var keyptur frá Dalvík og fór ég, litla örverpið eins og systkini mín myndu segja, með mömmu og pabba norður að sækja happafleyið.  Ég var aðeins sex ára og man þetta vel enn þann dag í dag.  Við gistum eina nótt við bryggjuna áður en við lögðum af stað austur.  Við fengum brælu á hluta leiðarinnar og er ég var sofandi niðri í koju, hoppaði ég ansi mikið upp og rak hausinn í loftið!  Þetta er minnisstætt og pabbi segir oft frá því þegar ég koma á fartinni upp til þeirra mömmu og pabba og var mikið niðri fyrir og sagði að ég hefði sko "hoppað alllllveg uppí loft" í veltingnum!  Minningarnar eru ótal margar og ég er heppin að eiga þær allar.  Mamma og pabbi studdu mig mikið í mínu aðaláhugamáli, hestunum.  Þau gáfu mér minn fyrsta hest þegar ég var tíu ára og hjálpuðu mér endalaust mikið við hirðinu og umönnun hestanna.  Þau þvældust með mér á mót um allt austurland og jafnvel suður og norður í land.  Þau höfðu gaman af öllu í kringum hestana og pabbi er ennþá að stússast í þessu með mér.

Eftir að mamma og pabbi fóru að hafa vetursetu hér í Reykjavík, hafa þau verið mér mikið innan handar.  Við Maríanna Sól bjuggum hjá þeim Jöklaselinu, síðan keyptum við sitthvora íbúðina hérna í Selásnum og það hefur verið ómetanlegt að hafa þau í næstu götu.  Þau hafa verið boðin og búin til að passa fyrir mig hvenær sem er og Maríanna Sól er mikil ömmu og afastelpa.  Síðan hún byrjaði í skólanum s.l haust, hefur hún haft fyrir vana að fara til þeirra að skóla loknum á daginn.  Þetta gerir hún enn, labbar til afa.

Það er mikið skarð skilið eftir í okkar daglega lífi, pabba og okkar Maríönnu Sólar.  Það sem við getum gert er að minnast góðu stundanna og allra minninganna sem við eigum og bíða þess að tíminn lækni sárin.

Við kveðjum þig elsku eiginkona, mamma og amma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Hilda og fjölskylda.

Ég samhryggist ykkur innilega, Mamma þín var kjarnakona og ég á margar góðar minningar þegar við vorum að leika okkur heima hjá þér, Ég man hvað það voru alltaf sérstaklega margir skór í forstofunni Og þegar pabbi þinn gaf okkur suðusúkkulaði sem var inn í fataskáp, man líka eftir því hvað mig langaði í föt sem þú áttir sem mamma þín saumaði og mig minni að það hafi verið matrósaföt

Kærar kveðjur til ykkar og endilega kíkið við hjá okkur þegar þið eigið leið um.

Hjördís

Hjördís Svan (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 11:11

2 identicon

Elsku Hilda mín, og þið öll systkinin og Garðar.

 Ég samhryggist ykkur innilega, og hef mikið hugsað til ykkar undanfarið.  Hlýjar kveðjur frá Danmörku.

Ninna frænka

Jonina (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 23:06

3 identicon

Sæl Ninna.

Gaman að heyra frá ykkur í Danmörku og við þökkum góðar kveðjur til okkar.  Biðjum að heilsa

Hilda.

Hilda Karen (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 11:26

4 identicon

Hæ Hjördís.

Við þökkum góðar kveðjur og það var gaman að sjá ykkur á Breiðdalsvík um daginn.  Því miður náði ég nú ekkert að tala við þig, enda margir að tala við og þú fórst áður en ég náði á þig!  En við eigum vonandi eftir að hittast fljótlega.  Á leiðinni suður á sunnudeginum, var svakalegt veður, hvasst og hált og ég fauk einu sinni útaf á hálkunni!  Þess vegna ákvað ég að skilja minn bíl eftir á Höfn hjá Kristni frænda á Kirkjubrautinni og hann er þar enn!  Ég þarf endilega að fara að sækja hann, veðrið er bara ekki búið að vera neitt frábært.

Ég vona að þú kíkir við eða látir í þér heyra næst þegar þú kemur í bæinn, það er nú kominn tími á hitting

Bestu kveðjur,
Hilda.

Hilda Karen (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband