Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Leti eða efnahagsástandið?

Eins og flestir hér á Fróni hafa tekið eftir er efnahagsumhverfið okkar ekki sérlega spennandi um þessar mundir.  Krónan í sögulegu lágmarki gagnvart flestum gjaldmiðlum og utan á þá staðreynd hleðst mikill snjóbolti; hækkanir lána, hækkanir í smásölugeiranum, erfiðleikar á fasteignamarkaðnum og svo mætti lengi telja.  Erum við að sigla inní nútímalegt kreppuástand?  Hvernig endar það og hvað verðum við lengi að rétta úr kútnum eftir þannig ferðalag?  Kannski á íslenska bjartsýnin, með slagorðið: "Þetta reddast", bara best við einmitt núna, því ekki getum við mælt með því að allir sökkvi sér í volæði og áhyggjur af ástandinu eins og það er.  Það er í svona aðstæðum sem forsjála og raunsæja fólkið heldur velli, þ.e þeir sem ekki byggðu sér stór einbýlishús og eiga nú ekkert nema skuldir uppá 50-80 milljónir í þeim og ráða nú ekki neitt við neitt.  En auðvitað snertir þetta alla, því allir þurfa að kaupa nauðsynjavöru eins og matvæli, föt og eldsneyti og allt hefur og er þetta að hækka um 20-30 %.  Við sem ekki sitjum við stjórnvöl skútunnar Ísland, verðum að vona að svona óöld gangi hratt yfir og hægt verði að ná tökum á ástandinu innan nokkurra mánaða og allt komist í samt lag aftur.


Annars hefur nú margt skemmtilegt gerst síðan síðast, eins og afmæli heimasætunnar, páskar, óvissuferð með hestakrökkum og hestasýning í reiðhöllinni í Víðidal.  Maríanna Sól stakk uppá að halda afmælispartýið í ævintýralandinu í Kringlunni og varð það úr.  Þetta gekk stórvel, fimmtán krakkar mættu spariklædd og léku sér í hinum ýmsu leikjum í Ævintýralandinu.  Svo kom pizza og þá var borðað, sungið og pakkar opnaðir.  Gjafirnar voru mjög flottar og hittu allar vel í mark hjá afmælisstelpunni, s.s Pet Shop dýr, Barbie, föt, skart, veski og síðast en ekki síst, hlaupahjól frá mömmunni.  Eftir allt þetta var hægt að leika sér aðeins meira og síðan voru allir sóttir! 

Páskarnir voru mjög huggulegir.  Við mæðgur vorum í borginni, fórum á hestbak og slöppuðum af.  Auðvitað var svo páskaeggjaleit á heimilinu og gekk vel og reyndar fórum við á laugardeginum í páskaeggjaleit í Elliðaárdalnum en það gekk ekki alveg eins vel.  Gamanið átti að byrja kl.14 og komum við 14.10 og þá voru öll eggin búín!  Málið var að eggjum var dreift á ákveðnu svæði og átti fólk að týna egg og fá í staðinn súkkulaðiegg.  Og af því að Íslendingar eru svo ódannaðir og gráðugir, þá týndu þeir fyrstu svona um það bil 25 egg hver en fengu auðvitað ekki 25 súkkulaðiegg, heldur bara eitt!  Þannig að fyrir þá sem komu uppúr tvö voru engin egg eftir, en einhverjir sáu þó aumur á þeim sem ekkert fundu og gáfu til dæmis Maríönnu Sól og frænku hennar sem var með okkur, sitt eggið hvorri til að þær gætu fengið eitt súkkulaðiegg í staðinn!  Held við sleppum þessari leit á næsta ári....  Afi Garðar fór austur til Breiðdalsvíkur með Rikka, Ödu og pabba hennar um páskana.  Það var víst fínt, fyrir utan kannski óspennandi veður og komu þau suður aftur á annan í páskum og fékk afi sykurlaust páskaegg frá Maríönnu Sól við komuna og hún fékk líka eitt frá afa!

Það er nóg um að vera í hestamennskunni um þessar mundir.  Mæðgur fóru í óvissuferð austur fyrir fjall með Fákskrakka í rútu.  Við sáum hestasundlaug að Áskoti í Ásahreppi og heimsóttum kunnan hestabúgað þar sem við grilluðum pylsur, fórum í leiki, skoðuðum dýrin á bænum og borðuðum skúffuköku í eftirrétt!  Þaðan lá leiðin í sund á Selfossi og það er greinilega alltaf jafn vinsælt að fara í sund.  Krakkarnir skemmtu sér vel og voru hæstánægð með ferðina.

Um síðustu helgi var svo mikil sýning, Æskan og hesturinn í reiðhöllinni í Víðidal.  Það eru tvær sýningar á dag, bæði laugardag og sunnudag.  Maríanna Sól var í svokölluðu grímutöltatriði, þar sem hún klæddi sig uppá sem prinsessu í síðu pilsi, með kórónu ofan á hjálminum og svo var hesturinn auðvitað líka skreyttur, allur með glimmeri!  Stúlkan knáa tók þátt í þremur sýningum, hefði tekið þátt í öllum fjórum, ef hún hefði ekki þurft að fara í Þjóðleikhúsið til að sjá Skilaboðaskjóðuna.  Allt gekk vel og fengu þátttakendur veglegar gjafir að launum frá aðalstyrktaraðila sýningarinnar.

Í dag eru einmitt vetrarleikar í Fáki og ætlar Maríanna Sól að keppa Grin


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband