Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
mamma sjötug.. og fleira..
31.1.2007 | 16:02
Já, nú er afmælið afstaðið og tókst það alveg snilldarvel. Allir skemmtu sér konunglega og fullt var út úr dyrum í Fögrubrekkunni hjá Hilmari og co. Veitingarnar voru alveg sérlega flottar og sáu nú svo sem margir um þær en þó aðallega mamma sjálf og Odda systir. Ég bakaði nokkrar franskar súkkulaðitertur, Svanhildur hans Hlyns bakaði nokkrar marengstertur, Ada hans Rikka gerði tvö 'Eftirlæti Báru' og Sigga systir gerði einhverja brauðrétti. Vona að ég gleymi engum.. Og 'by the way', takk allir fyrir skemmtilega veislu Afmælisgellan fékk svakalega fínar gjafir, t.d sumarbústaðaferð frá hinum snarrugluðu systrum sínum, utanlandsferð frá hinum frábæru og velheppnuðu börnum sínum, áfengi í lítravís, snyrtivörur og ilmvötn frá barnabörnunum, dekur í Mecca Spa og eina aðra snyrtistofu í Grafarvoginum, peninga og skartgripi. Það er sem sagt ekki spurning um það að maður stefnir að því að ná þessum fína aldri! Kíkið í albúmið til að sjá myndir frá þessum skemmtilega degi
Nú, svo er mín auðvitað nýkomin frá Danaveldi. Skellti mér í helgarferð með henni Helgu Jónu vinkonu minni, því við þurftum að sækja hann Óskar manninn hennar sem var búinn að vera í Köben í þrjár vikur og rataði ekki heim. Neei, hann var að klára járningameistaranámið sitt og stóð sig sannarlega eins og hetja, var langhæstur í sínum hóp (um 186 cm), djók, með m.a 10 fyrir skeifnasmíði og 11 fyrir járninguna. Við urðum auðvitað svakalega stoltar af drengnum Við gistum hjá henni Írisi Lind vinkonu okkar og vil ég hér með þakka henni enn og aftur fyrir frábæra gestrisni, rosa gott að vera hjá henni. Nú, á föstudagskvöldið var okkur fjórum fræknu boðið í mat til Írisar Sigurbjörns og Hauks en þau búa á Kagsåkollegíinu í Kaupmannahöfn. Það var yndislegt að koma til þeirra og barnanna þeirra þriggja, þar á meðal tvíburanna litlu. Maturinn var mexíkóskur og alveg rosalega góður. Þar sem að við hittum þau ekki oft, var mikið spjallað og eitthvað drukkið af bjór, hvítvíni og rauðvíni um leið. Síðan var knúsast í tvíburunum þeim Ísak Elí og Aroni Elvari og Rakel Heba var alveg fyrirmyndar stóra systir, þæg og góð en alveg rosa skemmtileg, á sko ekki langt að sækja það Þannig að það verður frábært að hitta þau næst þegar maður á leið til Köben.
Nú, auðvitað verslaði ég aðeins en aldrei þessu vant hélt ég mér alveg á mottunni í þeim efnum. Keypti mér einn kjól, enga skó, Katvig regngalla handa Maríönnu en það var einmitt mission í ferðinni að finna hann. Keypti líka Hugin og Mugin bol á hana, vantaði svo svartan bol við hörpilsið sem ég saumaði, og þessi fíni bolur var einmitt á útsölu! Keypti svo eitt óvænt atriði sem ég gat ekki sleppt; það voru brún leðurstígvel frá Kickers á Maríönnu. Þau áttu að kosta kr 929 DK en ég fékk þau á kr 278 Dk, á 70% afslætti eins og reiknisnillingar sjá strax. Eins og allir heilvita menn og konur skilja, var ekki hægt að sleppa þessu! Nú svo fékk Maríanna eitthvað af Diddl dóti og ég keypti mér viskustykki til að bródera í og líka smá garn og þá er nú bara allt upptalið held ég. Ég er alveg hrikalega ánægð með ferðina og væri til í að fara í svona ferð um það bil 1x í mánuði...en þið?
Nú svo er ég aftur komin niður á jörðina, farin að ríða út og þjálfa fyrir ístöltið 'Svellkaldar konur' sem verður 17.febrúar næstkomandi. Spennandi.. fór í fyrra og gekk ágætlega, toppa vonandi þann árangur
Bið að heilsa í bili..og p.s: það myndi nú ekki drepa ykkur að kvitta í gestabókina eða skrifa skemmtilega athugasemd hér að neðan
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
bllllesss jól
18.1.2007 | 09:57
Já, það er kominn tími til að kveðja jólin. Jólin fóru vel í alla mína fjölskyldu, sumir átu yfir sig, aðrir voru penni Það er góður tími núna, þó dimmt sé yfir og allt það. Hestarnir komnir inn, farnir að fá sér sundsprett í hestasundlaug Faxa hesta hjá Helga og Örnu. Frábært það, hrein snilld. Hestarnir skemmta sér konunglega, hafa voða gaman af þessari fjölbreytni held ég. Það er hins vegar svo fyndið, að fólk sem er ekki í hestamennsku, heldur að ég sé að grínast og hreinlega búin að missa vitið, þegar ég segi þeim að hesturinn minn sér í sundþjálfun, í HESTASUNDLAUG! En, þá bið ég viðkomandi bara að kíkja á heimasíðu Faxa hesta, www.faxahestar.is en ég er víst vefstjóri þeirrar síðu og sinni henni fyrir vini mína, Örnu og Helga.
Næsta mál á dagskrá er hins vegar það, að mamma er að verða sjötug á laugardaginn. Við ætlum að blása til allsherjar veislu og höfum þann háttinn á að það verður opið hús hjá Hilmari bróður í Fögrubrekkunni og allir vinir, fjölskylda og kunningjar eru velkomnir þangað. Hlökkum til að hitta alla á laugardaginn
Ekki má gleyma því að Odda Karólína hennar Siggu systir, á einmitt afmæli sama dag og amma sín og verður 11 ára á laugardaginn. Hún verður nú að fá smá athygli líka, auðvitað koma Sigga og co. öll að norðan. Viggi og Húni koma svo annað kvöld og María Björk hans Rikka kemur með Siggu og því hyski, þannig að það verður án efa líf í tuskunum um helgina!
Hasta la vista beibí
Bloggar | Breytt 30.1.2007 kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)