Stolt þjóðin hrópaði allan tímann "Áfram Ísland!"

Íslenska handboltalandsliðið tekur við silfrinuÞessi hvatning hefur allt í einu öðlast veigameiri merkingu í huga Íslendinga. Við erum silfurhafar í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking.

Þetta er án efa besti árangur íslenskra íþróttamanna á alþjóðavísu og fagnar þjóðin því sem ein manneskja. Auðvitað vorum við farin að eygja gullið og ljóst að úrslitaleikinn spiluðu tvö bestu liðin á leikunum. Frakkarnir voru betri en við í dag og þess vegna hrepptu þeir gullið en ekki við. Það hlýtur að vera ólýsanlegt að vera leikmaður íslenska liðsins í dag og ég óska þeim þess að þeir nái að njóta dagsins og stundarinnar til hins ýtrasta, því þetta er nú einu sinni atburður sem er ekki að gerast á hverjum degi í íslenskri íþróttasögu.

Ekki má gleyma þjálfaranum, Gumma og því teymi öllu. Hann tók að sér verkefni sem margir lögðu ekki í, þeir hljóta að sjá eftir því að hafa ekki séð von og styrk í liðinu. Gummi á mikinn heiður skilið, frábær þjálfari og stjórnandi sem hefur ásamt liði sínu komist á spjöld sögunnar.

Við Íslendingar erum klökk af stolti í dag, "strákarnir okkar" eru hetjur og menn dagsins og við fögnum þeim á viðeigandi hátt á miðvikudaginn þegar þeir koma heim eftir magnaða ferð til Peking.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband