Hestarnir
28.1.2009 | 11:30
Gleðigjafarnir hestarnir eru auðvitað löngu komnir á hús og farnir að úða í sig grænni töðu í hesthúsinu hennar Dagnýjar. Með því að tala um hestana á ég við minn eðalreiðhest Fönix frá Vopnafirði og hin glæsilega snilling Faxa frá Sogni. Þeir eru nokkuð líkir þessir tveir kappar, nema kannski í útliti. Þeir eru miklir vinir þó nokkur sé aldursmunurinn. Saman í stíu una þeir sér vel, et, drekkr og vera glaðr! Úti í gerði leika þeir sér eins og tryppi og koma sveittir inn af hamagangninum. Það er augljóst á atferli þeirra að þeim líður stórvel. Þeir eru báðir komnir í gríðargóða þjálfun, þó ekki sé einu sinni hann janúar liðinn. Óskar hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að þjálfa Fönix, þar sem yours truly er slösuð á hné. Það er síðan heimasætan Maríanna Sól sem sér algjörlega um þjálfunina á Faxa flotta og ríður hún út að meðaltali 6 sinnum í viku, ekkert gefið eftir þar!
Uglan er alltaf söm við sig, hress og kát. Hún er nú orðinn hinn mesti sveitahundur eftir hinar mörgu stundir með okkur mæðgum í hestshúsinu. Við deilum sennilega allar þrjár þeim draumi að eignast alvöru sveit einn góðan veðurdag. Ugla er nú byrjuð í sundkennslu. Það var ansi fyndið að sjá hana synda í fyrsta skiptið um síðustu helgi. Greyið skinnið. En hún var mjög dugleg og fékk dyggan stuðning frá Úra vini sínum.
Af öðrum vígstöðvum er allt gott að frétta. Maríanna Sól er dugleg í fimleikunum og er nú byrjuð í sundi í skólanum líka. Að venju er hún með eindæmum dugleg í skólanum og tekur náminu alvarlega. Hún er líka orðinn hinn mesti lestrarhestur, enda fékk hún fimm frábærar bækur í jólagjöf og er búin að lesa tvær þeirra. Á náttborði hennar núna er bókin 'Ballið á Bessastöðum' eftir Gerði Kristnýju og er hún mjög skemmtileg og hressilega skrifuð bók, eins og henni er einni lagið.
Mamman er alltaf að skrifa. Fyrsta tölublað Eiðfaxa á nýju ári er farið í prentsmiðjuna. Það er alltaf mikill léttir og gaman að fara að fást við ný verkefni fyrir næsta tölublað.
Yfir og út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forsíða jólablaðs Eiðfaxa
9.12.2008 | 13:55
Eftir vel heppnaða myndatöku um síðustu helgi, var ákveðið að hafa þau Maríönnu Sól og Kulda á forsíðu jólablaðs Eiðfaxa þessi jólin. Forsíðan lítur því svona út og er blaðið væntanlegt úr prentsmiðjunni í dag.
Sæt saman og jólaleg jólaforsíða
Kíkið líka í myndaalbúmið 'Jólalegar myndir' hér til að sjá fleiri myndir úr þessari myndatöku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þrír fílar lögðu af stað í leiðangur...
3.12.2008 | 20:07
Við mæðgur skelltum okkur í sveitaferð á sunnudaginn. Tilgangurinn var sá að Maríanna Sól hitti pabba sinn, og að auki höfðum við platað hann til að koma með okkur í myndaleiðangur. Hreiðar slóst í hópinn og Kuldi höfðingi líka.
Já, ég ætlaði að freista þess að ná skemmtilegum myndum af Maríönnu Sól og Kulda frá Grímsstöðum, til þess að nota á forsíðu jólablaðs Eiðfaxa. Margar skemmtilegar myndir komu út úr þessu skemmtilega ferðalagi okkar og nokkrar eru nú þegar komnar inná myndasíðuna. Eins og sjá má tróð Uglan okkar sér með á nokkrar...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Danish language
18.10.2008 | 11:23
Ég má til að setja inn þetta skemmtilega video af You Tube, það er algjör snilld. Þið verðið að horfa á það ef þið hafið ekki séð það nú þegar. Passið bara að míga ekki á ykkur, það er nokkur hætta á því!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Say no more...
8.10.2008 | 11:48
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýr Eiðfaxi í prentsmiðjunni!
9.9.2008 | 11:18
Sem blaðamaður og vefstjóri hjá Eiðfaxa hestatímaritinu, verð ég að nota tækifærið og kynna nýja blaðið okkar sem fór í prentsmiðjuna í gær. Þetta er annað tölublaðið sem ég kem að en það fyrsta var Landsmótsblaðið í síðasta mánuði.
Ef ég hef talið rétt á ég 20 blaðsíður af efni í þessu nýja blaði, með myndum. Það er gaman að minnast á það að ég tók einmitt forsíðumyndina sem prýðir Eiðfaxa að þessu sinni. Hún var tekin í ferðalaginu í Noregi í ágúst s.l, þar sem ég fylgdist með Norðurlandamótinu í hestaíþróttum í Seljord og heimsótti síðan glæsilegan hestabúgarð í S-Noregi. Um þetta allt fjalla ég í hinum nýja Eiðfaxa, auk þess sem ég skrifaði Reiðkennslugrein með Antoni Páli Níelssyni reiðkennara, tók viðtal við þýska listakonu sem málar mikið af hestamyndum og skrifaði grein um byltingu í kortlagningu reiðleiða á Íslandi og GPS merkingar þeirra. Ég mæli með því að þið kíkið á þetta blað um leið og það kemur úr prentsmiðjunni!
Nú er auðvitað allt komið í fastar skorður með haustinu. Skólinn byrjaður hjá Maríönnu Sól og nú er mín komin í 2.bekk. Hún er mjög heppin að hafa sama kennarann og í fyrra, hana Valgerði og í heildina er ég mjög ánægð með skólann. Síðasta vetur var ég bekkjarfulltrúi í bekknum (alltaf sama ofvirknin..) og það var mjög gaman. Við stóðum nú ekki ströngu, vorum tvær í þessu og skipulögðum gönguferðir og fórum í leikhús svo eitthvað sé nefnt.
Framundan eru hundasýningar og erum við Ugla búnar að fara á eina æfingu. Það gekk nú alveg ágætlega, miðað við það að ég hef varla labbað með hana í taum áður... það er ekki uppáhaldið mitt. Hún var mjög dugleg og það verður spennandi að sýna hana.
Pabbi er að hamast við að helluleggja í garðinum hjá mér, hann er ansi duglegur í því eins og svo mörgu öðru! Reyndar er veðrið ekki búið að leika við hann, endalaus rigning. En hann er seigur og þetta verður svakalega fínt þegar þetta verður búið, eins og alltaf í svona verkefnum.
Að lokum langar mig að benda ykkur á hryllilega fyndið myndband sem Heiðar Þór vinnufélagi minn benti mér á:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stolt þjóðin hrópaði allan tímann "Áfram Ísland!"
24.8.2008 | 19:58
Þessi hvatning hefur allt í einu öðlast veigameiri merkingu í huga Íslendinga. Við erum silfurhafar í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking.
Þetta er án efa besti árangur íslenskra íþróttamanna á alþjóðavísu og fagnar þjóðin því sem ein manneskja. Auðvitað vorum við farin að eygja gullið og ljóst að úrslitaleikinn spiluðu tvö bestu liðin á leikunum. Frakkarnir voru betri en við í dag og þess vegna hrepptu þeir gullið en ekki við. Það hlýtur að vera ólýsanlegt að vera leikmaður íslenska liðsins í dag og ég óska þeim þess að þeir nái að njóta dagsins og stundarinnar til hins ýtrasta, því þetta er nú einu sinni atburður sem er ekki að gerast á hverjum degi í íslenskri íþróttasögu.
Ekki má gleyma þjálfaranum, Gumma og því teymi öllu. Hann tók að sér verkefni sem margir lögðu ekki í, þeir hljóta að sjá eftir því að hafa ekki séð von og styrk í liðinu. Gummi á mikinn heiður skilið, frábær þjálfari og stjórnandi sem hefur ásamt liði sínu komist á spjöld sögunnar.
Við Íslendingar erum klökk af stolti í dag, "strákarnir okkar" eru hetjur og menn dagsins og við fögnum þeim á viðeigandi hátt á miðvikudaginn þegar þeir koma heim eftir magnaða ferð til Peking.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjungar hjá mæðgunum
5.8.2008 | 14:58
Eins og flestir hafa tekið eftir er ég mjög löt að blogga og geri það bara nákvæmlega þegar ég nenni og ekkert að því.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er ég komin í nýja vinnu. Er í mjög skemmtilegri vinnu sem blaðamaður og vefstjóri hjá hestatímaritinu Eiðfaxa, www.eidfaxi.is . "Það á nú við hana", hefði mamma sagt og það eru orð að sönnu, því hestamennskan er auðvitað mitt áhugamál og svo sannarlega ekkert leiðinlegt að vera á kafi í henni daginn út og inn. Mitt fyrsta stóra verkefni var auðvitað Landsmótið á Hellu í byrjun júlí. Þar vorum við öll, Eiðfaxagengið og púluðum myrkranna á milli. Stelpurnar þær Una, Imba og Ásta voru með kynningarbás í sölutjaldinu og stóðu þar vaktir eins og hetjur. Við blaðamenn, ritstjórar, pennar og umbrotsmaðurinn hann David unnum fyrir LH að gerð fréttablaðs sem kom út daglega á meðan að mótinu stóð og var það vægast sagt mikil vinna. Ég hef til dæmis aldrei séð svona fáa hesta eins og á þessu landsmóti! Á sunnudeginum var ég reyndar bara í brekkunni með "pung" frá Símanum og gat sett inn úrslitin bara í beinni á netið, rosa fínt mál það! Þetta var mikil reynsla fyrir mig, þó hefði nú verið skemmtilegra að getað farið aðeins meira í blaðamannagírinn og spjallað við fólk á mótinu.
Eftir Landsmótið kom rólegri tími og við tók vinna að nýju Eiðfaxa tímariti sem kom síðan út um 17.júlí og vinnan við það blað var mjög skemmtileg og safnaðist í reynslubankann. Í því blaði átti ég nokkrar mínu fyrstu greina, t.d umfjöllun um B-flokkinn, töltið o.fl.
Næsta stóra verkefni er Norðurlandamótið í hestaíþróttum sem fram fer í Seljord í Noregi um næstu helgi. Þangað fer ég ein og sé því um að setja inná vefinn og skrifa fréttir og greinar fyrir næsta blað. Það verður spennandi og lærdómsríkt að fara ein og ég hlakka mikið til.
Nú, við hefur bæst einn fjölskyldumeðlimur af loðnari gerðinni. Það er hún Ugla okkar. Hún er íslenskur fjárhundur af bestu gerð, sérlega geðgóð og dugleg og náttúrulega fallegasti hundurinn á Íslandi. Uglan er núna 3ja mánaða og orðin 90% húshrein. Maríanna Sól og Ugla eru góðar vinkonur og Maríönnu gengur uppeldið sérlega vel en Ugla kann að sitja, leggjast og rúlla. Nú þegar er Maríanna farin að spá í að rækta undan Uglu en þarf nú að bíða í a.m.k tvö ár með það. Ugla tekur svo að sjálfsögðu þátt í hundasýningu HRFÍ sem haldin verður í lok september og ætlar þar að vinna hvolpaflokkinn, nema hvað!
Af hestastelpunni Maríönnu Sól er það að frétta að hún er búin að vera á reiðnámskeiðum nærri stanslaust í sumar. Hún er orðin mikil hestastelpa og er búin að fá Faxa lánaðan hjá Rúnu Helgadóttur og fjölskyldu í Víðidalnum og ætlar að hafa hann næsta vetur. Trúlega verður þá haldið áfram að kenna Faxa hitt og þetta (!) sem hann ekki hefur lært nú þegar. Það verður nú aldeilis gaman að geta tekið skvísuna með sér í reiðtúra í vetur, sannarlega tilhlökkunarefni.
Kíkið í leiðinni á nýjar myndir... hilsen...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Leti eða efnahagsástandið?
5.4.2008 | 09:54
Eins og flestir hér á Fróni hafa tekið eftir er efnahagsumhverfið okkar ekki sérlega spennandi um þessar mundir. Krónan í sögulegu lágmarki gagnvart flestum gjaldmiðlum og utan á þá staðreynd hleðst mikill snjóbolti; hækkanir lána, hækkanir í smásölugeiranum, erfiðleikar á fasteignamarkaðnum og svo mætti lengi telja. Erum við að sigla inní nútímalegt kreppuástand? Hvernig endar það og hvað verðum við lengi að rétta úr kútnum eftir þannig ferðalag? Kannski á íslenska bjartsýnin, með slagorðið: "Þetta reddast", bara best við einmitt núna, því ekki getum við mælt með því að allir sökkvi sér í volæði og áhyggjur af ástandinu eins og það er. Það er í svona aðstæðum sem forsjála og raunsæja fólkið heldur velli, þ.e þeir sem ekki byggðu sér stór einbýlishús og eiga nú ekkert nema skuldir uppá 50-80 milljónir í þeim og ráða nú ekki neitt við neitt. En auðvitað snertir þetta alla, því allir þurfa að kaupa nauðsynjavöru eins og matvæli, föt og eldsneyti og allt hefur og er þetta að hækka um 20-30 %. Við sem ekki sitjum við stjórnvöl skútunnar Ísland, verðum að vona að svona óöld gangi hratt yfir og hægt verði að ná tökum á ástandinu innan nokkurra mánaða og allt komist í samt lag aftur.
Annars hefur nú margt skemmtilegt gerst síðan síðast, eins og afmæli heimasætunnar, páskar, óvissuferð með hestakrökkum og hestasýning í reiðhöllinni í Víðidal. Maríanna Sól stakk uppá að halda afmælispartýið í ævintýralandinu í Kringlunni og varð það úr. Þetta gekk stórvel, fimmtán krakkar mættu spariklædd og léku sér í hinum ýmsu leikjum í Ævintýralandinu. Svo kom pizza og þá var borðað, sungið og pakkar opnaðir. Gjafirnar voru mjög flottar og hittu allar vel í mark hjá afmælisstelpunni, s.s Pet Shop dýr, Barbie, föt, skart, veski og síðast en ekki síst, hlaupahjól frá mömmunni. Eftir allt þetta var hægt að leika sér aðeins meira og síðan voru allir sóttir!
Páskarnir voru mjög huggulegir. Við mæðgur vorum í borginni, fórum á hestbak og slöppuðum af. Auðvitað var svo páskaeggjaleit á heimilinu og gekk vel og reyndar fórum við á laugardeginum í páskaeggjaleit í Elliðaárdalnum en það gekk ekki alveg eins vel. Gamanið átti að byrja kl.14 og komum við 14.10 og þá voru öll eggin búín! Málið var að eggjum var dreift á ákveðnu svæði og átti fólk að týna egg og fá í staðinn súkkulaðiegg. Og af því að Íslendingar eru svo ódannaðir og gráðugir, þá týndu þeir fyrstu svona um það bil 25 egg hver en fengu auðvitað ekki 25 súkkulaðiegg, heldur bara eitt! Þannig að fyrir þá sem komu uppúr tvö voru engin egg eftir, en einhverjir sáu þó aumur á þeim sem ekkert fundu og gáfu til dæmis Maríönnu Sól og frænku hennar sem var með okkur, sitt eggið hvorri til að þær gætu fengið eitt súkkulaðiegg í staðinn! Held við sleppum þessari leit á næsta ári.... Afi Garðar fór austur til Breiðdalsvíkur með Rikka, Ödu og pabba hennar um páskana. Það var víst fínt, fyrir utan kannski óspennandi veður og komu þau suður aftur á annan í páskum og fékk afi sykurlaust páskaegg frá Maríönnu Sól við komuna og hún fékk líka eitt frá afa!
Það er nóg um að vera í hestamennskunni um þessar mundir. Mæðgur fóru í óvissuferð austur fyrir fjall með Fákskrakka í rútu. Við sáum hestasundlaug að Áskoti í Ásahreppi og heimsóttum kunnan hestabúgað þar sem við grilluðum pylsur, fórum í leiki, skoðuðum dýrin á bænum og borðuðum skúffuköku í eftirrétt! Þaðan lá leiðin í sund á Selfossi og það er greinilega alltaf jafn vinsælt að fara í sund. Krakkarnir skemmtu sér vel og voru hæstánægð með ferðina.
Um síðustu helgi var svo mikil sýning, Æskan og hesturinn í reiðhöllinni í Víðidal. Það eru tvær sýningar á dag, bæði laugardag og sunnudag. Maríanna Sól var í svokölluðu grímutöltatriði, þar sem hún klæddi sig uppá sem prinsessu í síðu pilsi, með kórónu ofan á hjálminum og svo var hesturinn auðvitað líka skreyttur, allur með glimmeri! Stúlkan knáa tók þátt í þremur sýningum, hefði tekið þátt í öllum fjórum, ef hún hefði ekki þurft að fara í Þjóðleikhúsið til að sjá Skilaboðaskjóðuna. Allt gekk vel og fengu þátttakendur veglegar gjafir að launum frá aðalstyrktaraðila sýningarinnar.
Í dag eru einmitt vetrarleikar í Fáki og ætlar Maríanna Sól að keppa
Bloggar | Breytt 4.8.2008 kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimasíða Tímons og Roxyar
9.2.2008 | 19:08
Það er nú komið svo í okkar skemmtilega samfélagi, að við setjum dýrin okkar á háan stall sem þau í flestum tilfellum eiga skilið að vera á. Það sem meira er, við ljáum þeim rödd og áætlum þannig það sem þau hugsa og vilja koma á framfæri, þar sem þau geta ekki talað mannamál. Þetta tekst oft mjög vel, þ.e að við skiljum vilja dýranna, sem betur fer fyrir alla aðila.
Bróðir minn og mágkona voru nýlega að opna heimasíðu fyrir hundana sína tvo og er hún auðvitað stórskemmtileg og ég mæli eindregið með henni, fullt af flottum myndum. Hér er hún: http://www.dyraland.is/dyr/70296/
Bloggar | Breytt 4.8.2008 kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)