Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Stolt þjóðin hrópaði allan tímann "Áfram Ísland!"
24.8.2008 | 19:58
Þessi hvatning hefur allt í einu öðlast veigameiri merkingu í huga Íslendinga. Við erum silfurhafar í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking.
Þetta er án efa besti árangur íslenskra íþróttamanna á alþjóðavísu og fagnar þjóðin því sem ein manneskja. Auðvitað vorum við farin að eygja gullið og ljóst að úrslitaleikinn spiluðu tvö bestu liðin á leikunum. Frakkarnir voru betri en við í dag og þess vegna hrepptu þeir gullið en ekki við. Það hlýtur að vera ólýsanlegt að vera leikmaður íslenska liðsins í dag og ég óska þeim þess að þeir nái að njóta dagsins og stundarinnar til hins ýtrasta, því þetta er nú einu sinni atburður sem er ekki að gerast á hverjum degi í íslenskri íþróttasögu.
Ekki má gleyma þjálfaranum, Gumma og því teymi öllu. Hann tók að sér verkefni sem margir lögðu ekki í, þeir hljóta að sjá eftir því að hafa ekki séð von og styrk í liðinu. Gummi á mikinn heiður skilið, frábær þjálfari og stjórnandi sem hefur ásamt liði sínu komist á spjöld sögunnar.
Við Íslendingar erum klökk af stolti í dag, "strákarnir okkar" eru hetjur og menn dagsins og við fögnum þeim á viðeigandi hátt á miðvikudaginn þegar þeir koma heim eftir magnaða ferð til Peking.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjungar hjá mæðgunum
5.8.2008 | 14:58
Eins og flestir hafa tekið eftir er ég mjög löt að blogga og geri það bara nákvæmlega þegar ég nenni og ekkert að því.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er ég komin í nýja vinnu. Er í mjög skemmtilegri vinnu sem blaðamaður og vefstjóri hjá hestatímaritinu Eiðfaxa, www.eidfaxi.is . "Það á nú við hana", hefði mamma sagt og það eru orð að sönnu, því hestamennskan er auðvitað mitt áhugamál og svo sannarlega ekkert leiðinlegt að vera á kafi í henni daginn út og inn. Mitt fyrsta stóra verkefni var auðvitað Landsmótið á Hellu í byrjun júlí. Þar vorum við öll, Eiðfaxagengið og púluðum myrkranna á milli. Stelpurnar þær Una, Imba og Ásta voru með kynningarbás í sölutjaldinu og stóðu þar vaktir eins og hetjur. Við blaðamenn, ritstjórar, pennar og umbrotsmaðurinn hann David unnum fyrir LH að gerð fréttablaðs sem kom út daglega á meðan að mótinu stóð og var það vægast sagt mikil vinna. Ég hef til dæmis aldrei séð svona fáa hesta eins og á þessu landsmóti! Á sunnudeginum var ég reyndar bara í brekkunni með "pung" frá Símanum og gat sett inn úrslitin bara í beinni á netið, rosa fínt mál það! Þetta var mikil reynsla fyrir mig, þó hefði nú verið skemmtilegra að getað farið aðeins meira í blaðamannagírinn og spjallað við fólk á mótinu.
Eftir Landsmótið kom rólegri tími og við tók vinna að nýju Eiðfaxa tímariti sem kom síðan út um 17.júlí og vinnan við það blað var mjög skemmtileg og safnaðist í reynslubankann. Í því blaði átti ég nokkrar mínu fyrstu greina, t.d umfjöllun um B-flokkinn, töltið o.fl.
Næsta stóra verkefni er Norðurlandamótið í hestaíþróttum sem fram fer í Seljord í Noregi um næstu helgi. Þangað fer ég ein og sé því um að setja inná vefinn og skrifa fréttir og greinar fyrir næsta blað. Það verður spennandi og lærdómsríkt að fara ein og ég hlakka mikið til.
Nú, við hefur bæst einn fjölskyldumeðlimur af loðnari gerðinni. Það er hún Ugla okkar. Hún er íslenskur fjárhundur af bestu gerð, sérlega geðgóð og dugleg og náttúrulega fallegasti hundurinn á Íslandi. Uglan er núna 3ja mánaða og orðin 90% húshrein. Maríanna Sól og Ugla eru góðar vinkonur og Maríönnu gengur uppeldið sérlega vel en Ugla kann að sitja, leggjast og rúlla. Nú þegar er Maríanna farin að spá í að rækta undan Uglu en þarf nú að bíða í a.m.k tvö ár með það. Ugla tekur svo að sjálfsögðu þátt í hundasýningu HRFÍ sem haldin verður í lok september og ætlar þar að vinna hvolpaflokkinn, nema hvað!
Af hestastelpunni Maríönnu Sól er það að frétta að hún er búin að vera á reiðnámskeiðum nærri stanslaust í sumar. Hún er orðin mikil hestastelpa og er búin að fá Faxa lánaðan hjá Rúnu Helgadóttur og fjölskyldu í Víðidalnum og ætlar að hafa hann næsta vetur. Trúlega verður þá haldið áfram að kenna Faxa hitt og þetta (!) sem hann ekki hefur lært nú þegar. Það verður nú aldeilis gaman að geta tekið skvísuna með sér í reiðtúra í vetur, sannarlega tilhlökkunarefni.
Kíkið í leiðinni á nýjar myndir... hilsen...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)