Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

haustmót, leikhús, leikhús

Ég skoðaði í gær heimasíðu vinafólks í Danmörku, þau eru nýbúin að eignast tvíbura, tvo flotta stráka.  Þeir komu nú töluvert fyrr en áætlað var, eða um 6 vikum fyrr en þeim heilsast þó mjög vel.  Þeir þurfa þó að dvelja á spítalanum undir eftirliti næstu vikurnar, eins og gefur að skilja.  Innilegar hamingjuóskir til foreldra og stóru systur Koss  Ótrúleg kraftaverk alltaf þessi litlu kríli.  Við mæðgurnar ásamt Heklu Diljá frænku, skelltum okkur á haustmót Svanbergs sem var haldið í sól og blíðu í Þykkvabænum hjá ömmunni og afanum.  Það voru þeir Kristall og Flæmingur sem fengu það ábyrgðarfulla hlutverk að vera fararskjótarnir og stóðu þeir sig með miklum sóma, þó að áhugi hafi kannski ekki verið í botni hjá báðum.  Það er skemmst frá því að segja að allir stóðu sig eins og hetjur á mótinu og þá ekki síst hinn ungi mótshaldari!  Mjög skemmtilega til fundið hjá hinum áhugasama hestagaur!  Eftir mótið léku krakkarnir sér, ýmist úti eða inni og undu sér hreint ljómandi vel.  Á meðan bakaði húsfreyjan á Tjörn, hún Þórunn, æðislegar pönnukökur af miklum móð ofan í allt gengið!!  Hreinn snilldardagur í sveitinni Svalur 

Pétur Gaut verð ég nú að minnast á.  Sá gaurinn þann á laugardagskvöldið með Dagnýju og Huldu, eða réttara sagt 1/2 Dagnýju og Huldu, þar sem að sú fyrrnefnda mætti of seint í fyrri hálfleikinn og náði aðeins þeim síðari.  Ég skemmti mér mjög vel í Kassanum, flott uppfærsla á stykkinu fræga eftir Ibsen og hreinlega sló hann Ólafur Darri öll met!  Náunginn er alveg frábær, algjör senuþjófur og bara mjög sannfærandi í sínum hlutverkum!  Mæli með því að sjá þetta stykki.

Á sunnudaginn sáum við mæðgur annað leikhúsverk, Ronju ræningjadóttur í Borgarleikhúsinu.  Skelltum okkur í Matthíasarskóg með Helgu Jónu, Svanbergi, Vilmari, Söndur og Hjálmari.  Þetta var mjög skemmtilegt og ansi vel gert bara.  Laddi stóð sig frábærlega sem Matthías ræningjaforingi og Eggert Þorleifsson fór á kostum sem Skalla-Pétur.  Ekki skemmdi nú fyrir að við fengum að hitta Ronju og Birki eftir sýninguna og fengum þau til að skrifa nafnið sitt á geisladiskana með lögunum úr sýningunni.  Næst ætlum við svo að sjá Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu, hlökkum til.

Læt þetta nægja í bili.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband